Margrét Rós Ingólfsdóttir: Af vettvangi skipulagsmála
Af vettvangi skipulagsmála
Eyjamenn eru almennt bjartsýnir á framtíð sína og Eyjanna. Það
dylst engum sem fer um bæinn okkar að framkvæmdir eru miklar og
einstaklingar og fyrirtæki eru stórhuga í framkvæmdum. Staðreyndin er sú
að á árunum 2004-2016 hafa verið byggðir hér í Eyjum 15.820,3 m2
samkvæmt samþykktum Umhverfis –og skipulagsráðs. Er þá um að ræða
nýbyggingar, viðbyggingar og endurbyggingar eldri húsa. Það er sennilega
íslandsmet sé mið tekið af því að sveitarfélagið er ekki nema um 13
km2.
Nýtt aðalskipulag til næstu 20 ára
Á fundi Umhverfis –og skipulagsráðs í byrjun desember verður lögð
fram tillaga að nýju aðalskipulagi Vestmannaeyja. Verður tillagan í
framhaldi auglýst og allir sem vilja geta kynnt sér efni hennar og hafa
tilskilinn frest til þess að skila inn athugasemdum. Í tillögunni koma
m.a. fram tillögur um stórskipahöfn, byggð í Löngulág, að grafa út
hraunið, nýtt athafnasvæði og ótal margt fleira. Það er von mín að sem
flestir muni kynna sér efni tillögunnar og koma með ábendingar eða
athugasemdir.
Kærkomin upplyfting
Eitt af þeim málum sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið,
t.d á samfélagsmiðlum, er fyrirhuguð uppbygging á lóð á Skólavegi 7, en
sótt hefur verið um niðurrif hússins sem þar stendur og í staðinn að
byggja 3 íbúða hús með bílastæði fyrir hverja íbúð í kjallara.
Það hús sem stendur nú á lóðinni á sér um margt merkilega sögu. Það
var byggt árið 1922 og er af mörgum kallað Ásnes í daglegu tali. Í
hugum margra fylgja húsinu hlýlegar minningar. Fyrir utan þá sem þar
hafa búið eða dvalið, þá voru margir reglulegir gestir í blómabúðinni
hjá Imbu. Það er því bæði sjálfsagt og eðlilegt að horfa á eftir húsinu,
eins og það eitt sinn var, með trega. En að sama skapi er gott að
gleðjast yfir því að þessi fallega lóð í hjarta bæjarins verði nýtt
betur en nú er. Sjálf er ég sannfærð um að svo muni verða.
Nýtt gistiheimili í Vesturbænum
Allmargir sjá á einnig eftir því að hafa ekki verslun í vesturbænum
en það er víst svo að allt er breytingum háð. Hlutverk okkar í
skipulagsmálum er meðal annars að mæta þörfum samtímans og tryggja að
þær falli að skipulagi almennt. Í því húsnæði sem eitt sinn hýsti
Kaupfélagið í Goðahrauni og síðar m.a. 11-11 og Kjarval hafa
einstaklingar fest kaup á og fengið leyfi til að útbúa þar gistiheimili.
Það er fagnaðarefni að slíkir eldhugar skuli ráðast í þær aðgerðir og
finna ný not fyrir húsnæði sem í nokkurn tíma hefur staðið autt og var
farið að láta verulega á sjá og svæðinu ekki til framdráttar. Nú þegar
er búið að saga út fyrir gluggum og lítur húsið strax skemmtilegra út
fyrir vikið. Tækifærin fyrir gististað í vesturbænum eru mikil, t.d er
nálægð við golfvöllinn og íþróttavelli mikil auk þess sem útsýni, t.d
yfir smáeyjarnar og í Herjólfsdal er óviðjafnanlegt.
Stórhuga verkefni HS-veita
Það hefur vart farið framhjá nokkrum að framkvæmdir við nýja
Varmadælustöð við Hlíðarveg eru í fullum gangi. Þar er áætlað er að dæla
um 2.000 tonnum af sjó á klukkustund þegar varmadælurnar verða komnar
í gagnið. Í hundruði ára höfum við Eyjamenn nýtt sjóinn okkur til
framdráttar, en aldrei fyrr með þessum hætti. Þegar varmadælustöðin
verður komin í gagnið verður sjórinn umhverfis Vestmannaeyjar nýttur til
að vinna úr honum varma til að hita húsnæði og ætti slíkt að leiða til
sparnaðar fyrir einstaklinga og fyrirtæki, að ótöldu hversu
umhverfisvænna þetta er. Áætlað er að varmadælustöðin verði klár um mitt
næsta ár gangi allt að óskum.
Öryggi gangandi
Sl. ár hefur verið unnið mikið og gott starf í endurnýjun
gangstétta víðsvegar um Vestmannaeyjar og telja nýjar og endurgerðar
gangstéttir tugum kílómetra. Njótum við Eyjamenn þar fyrst og fremst
góðs af Agga og hans öfluga gengi. Þessa dagana er verið að hefjast
handa við að endurnýja gangstéttir og kanta á Boðaslóð og áfram verður
svo haldið, svæði við Hlíðarveg og við Hraunbúðir eru þar framarlega í
röðinni. Þá verður farið í að endurgera hraðahindranir á Vesturvegi,
Vestmannabraut og á Hraunhamri, en þær verða hellulagðar. Endurnýjun
gangstétta og kanta er ekki einungis fagurfræðileg, heldur er ekki síður
um að ræða mikið öryggisatriði fyrir gangandi vegfarendur. Það má því
ekki slá slöku við hvað það varðar og áfram verður haldið.
Tækifæri út um allt!
Í Eyjum höfum við byggt okkur byggðarkjarna sem við getum verið
stolt af. Ekki eingöngu erum við nokkuð margir íbúar á mælikvarða
íslenskra landsbyggða heldur er atvinnulíf hér í senn öflugt og blómlegt
og þjónusta góð. Allt þarf þetta að þrífast innan náttúru og umhverfis
sem á sér vart líka í veröldinni allri.
Þetta skapar okkur margvísleg og vandasöm verkefni og gerir störf
Umhverfis –og skipulagsráðs í senn krefjandi og ábyrgðarmikil, en ekki
síður spennandi og skemmtileg. Við höfum ótrúlega mörg tækifæri til þess
að halda áfram að gera vel, nýta tækifærin sem eru allt í kringum okkur
og treysta fyrirtækjum og einstaklingum áfram til góðra verka.
Margrét Rós Ingólfsdóttir
Formaður Umhverfis –og skipulagsráðs Vestmannaeyja
https://www.eyjafrettir.is/atvinnulif/margret-ros-ingolfsdottir-af-vettvangi-skipulagsmala/2017-11-16
Pálmi Freyr Óskarsson ·
Hmmm........eru kosningar í nánd?
Ok. gott að koma með það "jákvæða" sem (Ó)Umhverfis- og (Ó)skipilags(Ó)ráðið hefur gert síðustu ár. Enn það gleymist allt það neikvæða sem (ó)ráðið hefur gert. Sem er svo mikið að ég nenni að telja upp í þetta sinn.
Ok. gott að koma með það "jákvæða" sem (Ó)Umhverfis- og (Ó)skipilags(Ó)ráðið hefur gert síðustu ár. Enn það gleymist allt það neikvæða sem (ó)ráðið hefur gert. Sem er svo mikið að ég nenni að telja upp í þetta sinn.
Margrét Rós Ingólfsdóttir
Sveitarstjórnarkosningar verða 26. maí 2018 til upplýsingar.
Ég stend við þær àkvarðanir sem ràðið hefur tekið à meðan ég gegni þar formennsku og er heilt yfir ànægð með þær sannast sagna. Þér eins og öðrum er síðan frjàlst að hafa skoðun à þeim auðvitað.
Ég stend við þær àkvarðanir sem ràðið hefur tekið à meðan ég gegni þar formennsku og er heilt yfir ànægð með þær sannast sagna. Þér eins og öðrum er síðan frjàlst að hafa skoðun à þeim auðvitað.
Pálmi Freyr Óskarsson ·
Veit alveg hvenær sveitastjórnarkosningar eru. Ekki alveg svo heimskur eins og þú heldur Margrét Rós.
Mér finnst það alveg augljóst að kosningaráróður Sjálfstæðis"komma"flokks Vestmannaeyjar sé formlega byrjaður með útkomu t.d á EY. Svo ert þú MRI byrjuð að fagurgala verk "flokksins", enn gleymir ÖLLU því sem illa er gert. Sem er þónokkur, sem ég nenni ekki að telja hér núna. Kannski seinna.
Mér finnst það alveg augljóst að kosningaráróður Sjálfstæðis"komma"flokks Vestmannaeyjar sé formlega byrjaður með útkomu t.d á EY. Svo ert þú MRI byrjuð að fagurgala verk "flokksins", enn gleymir ÖLLU því sem illa er gert. Sem er þónokkur, sem ég nenni ekki að telja hér núna. Kannski seinna.
Jónas Þór Sigurbjörnsson ·
Mér datt það sama í hug.
Ummæli
Skrifa ummæli